Össur – Þriðji ársfjórðungur 2012

HÆG SALA Í BANDARÍKJUNUM HEFUR ÁHRIF Á VÖXT

5-11-2012 — /europawire.eu/ — Sala – Söluvöxtur var 2%, mælt í staðbundinni mynt. Heildarsalan nam 99 milljónum Bandaríkjadala samanborið við 101 milljón dala á þriðja ársfjórðungi 2011. Áframhaldandi eftirlit endurgreiðsluaðila hefur hægt á sölu á stoðtækjum í Bandaríkjunum og hefur áfram áhrif á heildarsölu. Enginn söluvöxtur var í stoðtækjum eða 0%, mælt í staðbundinni mynt en söluvöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 3%, mælt í staðbundinni mynt. Enn einn fjórðunginn sýnir Össur í Asíu mjög góðan vöxt eða 24%, mælt í staðbundinni mynt.

Arðsemi – Reksturinn gengur vel og sýnir góða arðsemi. Annan fjórðunginn í röð vex sala á spelkum og stuðningsvörum á meðan sala á stoðtækjum dregst saman, sem hefur neikvæð áhrif á framlegð. Þrátt fyrir breytta vörusamsetningu og minni sölu helst framlegðarhlutfallið stöðugt sem staðfestir góðan árangur framleiðslunnar í Mexíkó og jákvæð áhrif annarra verkefna innan framleiðsludeildar. Framlegðin nam 61,7 milljónum Bandaríkjadala eða 63% af sölu sem er sama hlutfall og á þriðja ársfjórðungi 2011.

EBITDA nam 18 milljónum Bandaríkjadala eða 19% af sölu, samanborið við 20% af sölu á sama tímabili 2011. EBITDA er lægri vegna minni sölu og aukinnar fjárfestingar í rannsóknar- og þróunarstarfi.

Jón Sigurðsson, forstjóri:
“Niðurstöður þriðja ársfjórðungs eru undir okkar væntingum og hafa áhrif á áætlun fyrir árið í heild. Eftirlit endurgreiðsluaðila í Bandaríkjunum hefur haft meiri áhrif á söluna en stjórnendur gerðu ráð fyrir. Samt sem áður hefur fjórðungurinn líka verið mjög ánægjulegur þar sem Oscar Pistorius skráði nafn sitt í sögubækurnar sem fyrsti aflimaði keppandinn á Ólympiuleikunum. Frammistaða Oscars og fleiri afreksíþróttamanna á Ólympíumóti fatlaðra veitti okkur líka innblástur og sýndi umheiminum að fötlun þarf ekki að hindra fólk í að ná markmiðum sínum. Við erum stolt yfir því að vera þátttakendur í þeirri vegferð.”

Stoðtækjamarkaðurinn í Bandaríkjunum – Á þessu ári hefur aukið eftirlit frá endurgreiðsluaðilum eins og Medicare haft veruleg áhrif á stoðtækjamarkaðinn í Bandaríkjunum. Það hefur skapað óvissu á markaðnum og leitt til minni eftirspurnar eftir dýrari vörum. Samkvæmt könnun samtaka stoðtækjaverkstæða í Bandaríkjunum (AOPA – American Orthotic & Prosthetic Association), eru 75% þeirra verkstæða sem svöruðu könnuninni í eftirlitsferli og jafnframt segja 81% svarenda að þessar aðgerðir hafi mikil áhrif á starfsemina. Þetta eftirlit hefur haft meiri áhrif á markaðinn en stjórnendur gerðu upphaflega ráð fyrir og mun þeirra áhrifa gæta fram á næsta ár.

Ólympíumót fatlaðra – Team Össur náði mjög góðum árangri á Ólympíumóti fatlaðra núna í haust. Hópurinn samanstóð af mörgum fremstu íþróttamönnum heims og vann hann samtals til 21 verðlauna (6 gullverðlauna, 7 silfurverðlauna og 8 bronsverðlauna) og setti að auki 6 heimsmet. Af þeim aflimuðu afreksmönnum sem komust í úrslit notuðu 2/3 fætur frá Össuri, til dæmis Flex-foot Cheetah.

Áætlun 2012 – Vegna neikvæðra markaðsaðstæðna á stoðtækjamarkaði í Bandaríkjunum og minni sölu þar gera stjórnendur ráð fyrir því að niðurstöður ársins verði undir áður birtri áætlun fyrir árið 2012 um innri söluvöxt á bilinu 4-6%, mælt í staðbundinni mynt, og EBITDA leiðrétt á bilinu 20-21% af veltu. Endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir innri söluvexti á bilinu 2-3%, mælt í staðbundinni mynt, og EBITDA leiðrétt á bilinu 18-19% af veltu.

Símafundur á morgun, miðvikudaginn 24. október, kl. 10:00

Á morgun, miðvikudaginn 24. október, verður haldinn símafundur þar sem farið verður yfir niðurstöður ársfjórðungsins. Fundurinn hefst kl. 10:00 GMT / 12:00 CET. Á fundinum munu þeir Jón Sigurðsson, forstjóri, og Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri, kynna afkomu félagsins og svara spurningum. Fundurinn fer fram á ensku og verður hægt að fylgjast með honum á netinu á slóðinni www.ossur.com/investors

Símanúmer til að taka þátt í fundinum eru:
Evrópa: 44 (0) 1452 555131 or + 46(0)8 506 307 79
Bandaríkin: + 1 866 682 8490
Ísland: 800 9300

Athugið að þetta yfirlit nær aðeins yfir helstu þætti uppgjörsins. Tilkynningu í fullri lengd á ensku er að finna á www.ossur.com/investors

Follow EuropaWire on Google News
EDITOR'S PICK:

Comments are closed.